Undirbúningur fyrir mælingu
  1. Mæling skal gerð á fastandi maga. Eftir máltíðir verður aukið blóðflæði í meltingarfærum sem veldur merkjanlegum mun á leiðniviðnámi líkamans. Því verður útkoma úr mælingunni ekki eins nákvæm og því mælt með því að fasta í að minnsta kosti 2 klst. fyrir mælingu.
  2. Salernisferð ef þörf er á. Fitumassi er mældur með því að draga fitufrían massa frá heildarþyngd. Því er mælt er með salernisferð fyrir mælingu ef að fólki er mál. Af sömu ástæðu er mælst til þess að ekki hafi verið borðað síðustu 2 klukkustundirnar.
  3. Léttur fatnaður. Fatnaður getur aukið heildarþyngd líkamans og því truflað útreikning á fitumassa líkamans. Léttar stuttbuxur/leggings og léttur stuttermabolur eru í góðu lagi en brjóstahaldari má ekki vera með spöngum.
  4. Mæling áður en farið er á æfingu. Við æfingar eykst blóðflæðið og líkamshitinn hækkar. Líkaminn bregst við með víkkun æða í húð til þess að kæla líkamann aftur. Þá getur leiðniviðnám líkamans breyst og mælingin verður ónákvæm. Eðlilegu blóðflæði er náð á 30 – 60 mínútum eftir æfingu en tíminn er bæði einstaklingsbundinn og fer líka eftir því hvers konar æfing var tekin.
  5. Mæling áður en farið er í sturtu, bað eða gufu. Við heita sturtu, bað eða gufu eykst blóðflæðið og líkamshitinn hækkar. Líkaminn bregst við með æðaútvíkkun í húð til þess að kæla líkamann aftur. Þá getur leiðniviðnám líkamans breyst og mælingin verður ónákvæm.
  6. Forðast mælingu meðan á blæðingum stendur. Síðustu daga fyrir tíðir og meðan á blæðingum stendur verður aukning á vökva í líkamanum fyrir tilstilli progesterons. Það getur valdið ónákvæmni í mælingunni. Oft er matarlyst aukin þessa daga og meiri sækni í sykraðan og/eða saltan mat sem getur aukið fitumassa á þessu tímabili mánaðarins.

Made on
Tilda