Fyrir hverja?
Hentar fyrir alla þá sem vilja fylgjast með og bæta heilsu sína og líkamsburði. Sem dæmi má nefna fólk sem er í ofþyngd, offitu, of létta einstaklinga eða þá sem eru í eðlilegri þyngd í kílóum talið en óeðlilega vöðvarýrir en á sama tíma of feitir. Einnig þeim sem eru að meta árangur við æfingar eða hvers konar hreyfingu eða vilja gera breytingar á mataræði og lífsstíl.

Mælingarnar gætu sömuleiðis verið liður í heilsueflingarátaki fyrirtækja því möguleiki er á að koma með mælitækið á vinnustaðinn. Niðurstöður mælinga með gagnreyndu mælitæki vekja meðvitund starfsmanna og áhuga á eigin heilsu, ásamt því að efla liðsheildina.

Ef taldir eru upp hópar sem gætu haft hvað mest gagn af því að fylgjast með líkamssamsetningu þá má nefna:

  • Konur á breytingaskeiði sem allt í einu fara að safna á sig kílóum án þess af fá rönd við reist
  • Fullorðnir sem hreyfa sig lítið og eru jafnt og þétt að missa vöðvamassa vegna aldurs
  • Unglingar í mikilli kyrrsetu sem veldur því að vöðvar eru rýrir og uppbygging beina verður ekki eins og best er á kosið
  • Fólk sem hefur glímt við veikindi og tapað niður atgervi

Einstaklingar á aldursbilinu 3 – 99 ára og í þyngd 10 – 250 kg geta farið í mælitækið.

Varúð! Hverjir mega ekki fara í mælitækið?

  • Fólk með hjartagangráð
  • Fólk með hjartabjargráð
  • Ófrískar konur

Þótt straumurinn sem er leiddur í gegn um líkamann sé mjög vægur þá er hugsanlegt að hann hafi truflandi áhrif á gangráð eða bjargráð.

Athugið að meðan að konur eru á blæðingum fást ekki nákvæmar niðurstöður.
Made on
Tilda