Um Corpor.is
Ég heiti Margrét H. Indriðadóttir og stofnaði fyrirtækið Corpor.is á vordögum 2020 með það að markmiði að stuðla að heilbrigði og hreysti. Corporis er latneska orðið yfir líkama en ég býð upp á mælingar á líkamssamsetningu ásamt ráðgjöf til þess að bæta hana. Ég hef mikinn áhuga á að vinna með þeim sem eru í ágætu formi en vilja ná fram ákveðnum breytingum s.s. að auka vöðvamassa líkamans í heild eða ákveðinna líkamshluta en einnig þeim sem hafa áhyggjur af því að holdafarið sé farið að hafa slæm áhrif á heilsu þeirra.

Heilbrigður lífsstíll er í öndvegi hjá mér þar sem hreyfing, hollt mataræði og góður svefn er undirstaðan. Ég hef líka óbilandi þörf fyrir að miðla ráðum sem stuðla að því að sem flestir fái að upplifa og njóta ávaxtanna af heilbrigðum lífsstíl.

Ég er með B.Sc. í sjúkraþjálfun og M.Sc. í íþrótta- og heilsufræði frá Háskóla Íslands. Að auki hef ég sótt fjölda námskeiða um meðferð stoðkerfisvandamála sem var starfsvettvangur minn til margra ára, lengstum á eigin sjúkraþjálfunarstofu. Þá hef ég komið að rannsóknarstörfum fyrir Háskóla Íslands í tveimur heilsufarsrannsóknum á um 1000 ungmennum þar sem rannsökuð voru tengsl lífsstíls og ýmissa heilsufarsþátta s.s. líkamssamsetningar, þreks, íþróttameiðsla og stoðkerfiskvilla, svefns og andlegra þátta. Hjá Háskólanum hef ég verið gestakennari og prófdómari í MSc. vörn. Meðfram starfi mínu hjá Endurheimt Heilsumiðstöð starfa ég hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins til liðsinnis þeim sem hafa fengið ávísað Hreyfiseðli.

Mælitækinu kynntist ég í starfi mínu hjá Ljósinu sem er endurhæfingarmiðstöð fyrir
krabbameinsgreinda. Af þeirri góðu reynslu fékk ég mikinn áhuga á því að almenningur hefði aðgang að slíkum mælingum sem þar sönnuðu gildi sitt og sýndu svart á hvítu hvað var að virka hjá hverjum og einum varðandi hreyfingu og mataræði. Mælingarnar gáfu að auki mikilvægt aðhald og hvatningu til þess að gera sitt allra besta.

Af áhugamálum mínum þá er útivist í náttúrulegu umhverfi efst á listanum. Ég hef líka gaman af því að ferðast og það er á efst stefnuskránni að kanna hálendi Íslands. Nýlega tók ég upp á því að læra að smíða úr silfri mér til gamans. Svo er ég bara frekar venjuleg kona sem hefur gaman af því að vera með fjölskyldu og vinum og gera notalegt í kring um mig og fjölskylduna.
Made on
Tilda